Snæfríður Sól Jórunnardóttir varð í 21. sæti í 100 m skriðsundi á Ólympíuleikum ungmenna í Buenos Aires í Argentínu í gær.
Snæfríður synti á tímanum 57,22 sek. Hún leiddi sundið þegar það var hálfnað en gaf eftir á lokasprettinum. Sextán bestu tímarnir komust í úrslit en keppendur í greininni voru 45 talsins. Á morgun keppir Snæfríður í undanrásum í 200 m skriðsundi, sem er hennar sterkasta grein.
Fimleikamaðurinn Martin Bjarni Guðmundsson keppti í gær í hringjum og stökki. Í hringjum fékk hann einkunnina 11,833 sem tryggði honum 27. sæti í greininni af þeim 34 keppendum sem tóku þátt. Í stökki fékk Martin 13,449 stig sem var 10. besta stökk keppninnar.
Hann er annar varamaður í úrslitum í stökki og að loknum fjórum áhöldum af sex í fjölþrautinni er Martin Bjarni í 21. sæti með 49,349 stig. Keppni í áhaldafimleikum heldur áfram í kvöld þegar Martin Bjarni keppir á tvíslá.