Hamar/Þór vann nokkuð öruggan sigur á Ármanni í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld, þegar liðin mættust í Þorlákshöfn.
Heimakonur byrjuðu leikinn af krafti og leiddu 30-19 eftir 1. leikhluta en staðan var 53-43 í hálfleik.
Undir lok 3. leikhluta dró hratt saman með liðunum, þegar Ármann gerði 17-6 áhlaup og fjórði leikhlutinn varð óþarflega spennandi. Liðunum gekk mjög illa að skora á síðustu tíu mínútunum og Ármann jafnaði 81-81 á lokamínútunni. Jenna Mastellone kláraði hins vegar leikinn fyrir Hamar/Þór en hún skoraði sex stig á síðustu 29 sekúndum leiksins, flest af vítalínunni. Lokatölur urðu 87-81.
Mastellone var stigahæst hjá Hamri/Þór með 26 stig og 10 fráköst og Yvette Adriaans og Emma Hrönn Hákonardóttir voru sömuleiðis öflugar.
Staðan í deildinni er þannig að Hamar/Þór er í 5. sæti með 24 stig en Ármann er í 6. sætinu með 18 stig.
Hamar/Þór-Ármann 87-81 (30-19, 23-24, 24-27, 10-11)
Tölfræði Hamars/Þórs: Jenna Mastellone 26/10 fráköst/5 stoðsendingar, Emma Hrönn Hákonardóttir 23/7 fráköst, Yvette Adriaans 19/16 fráköst, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 8, Helga María Janusdóttir 4, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 3, Gígja Rut Gautadóttir 2, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir 2.