Handboltamaðurinn Ragnar Jóhannsson á Selfossi leikur um helgina tvo æfingaleiki með þýska úrvalsdeildarliðinu Gummersbach.
Gummersbach bauð Ragnari til æfinga um síðustu helgi og vildu svo fá að sjá hann aftur í æfingaleikjum með liðinu í Frakklandi um helgina. Ragnar sat uppi á hótelherbergi í Dijon þegar sunnlenska.is sló á þráðinn til hans.
„Ég er svona mátulega rólegur, sit hérna með hnútinn í maganum,“ segir Ragnar hlæjandi. „Mér líst auðvitað mjög vel á aðstæður hjá Gummersbach en ég er ekki að gera mér neinar vonir um að fá samning. Forráðamenn liðsins hafa sagt mér að þeir séu annað hvort að leita að ungum og efnilegum leikmanni til að byggja upp liðið, eða þá að þeir kaupi eldri og reyndari leikmann. Ég ætla bara að njóta þess að vera hérna og vonandi næ ég að sýna sparihliðarnar í þessum leikjum.“
Gummersbach hafði samband við Róbert Sighvatsson, fyrrverandi leikmann félagsins, og spurðist fyrir um örvhenta skyttu. Róbert benti félaginu á Ragnar sem hefur farið á kostum í N1 deildinni í vetur og þar með fóru hjólin að snúast.
„Við æfðum fjórum sinnum um síðustu helgi og það gekk ágætlega. Að minnsta kosti nógu vel til þess að þeir vildu bjóða mér út aftur og sjá mig í leik en við spilum tvo leiki um helgina við frönsk úrvalsdeildarlið,“ segir Ragnar.
Ragnar vinnur þessa stundina á leikskólanum Álfheimum á Selfossi en hann segist lengi hafa stefnt á atvinnumennsku í handbolta. „Þó að ég kunni vel við mig á leikskólanum þá er atvinnumennska í handbolta eitthvað sem ég hef stefnt á í mörg ár. Hvort það verður núna eða seinna verður bara að koma í ljós. Ég veit ekkert hvaða möguleika ég á hjá GUmmersbach en sama hvernig fer þá er þessi ferð góð reynsla og góður skóli fyrir mig. Ég er strax búinn að læra helling á þessu,“ segir Ragnar en þetta er í fyrsta skipti sem hann fer á reynslu til erlends félagsliðs.
Enginn Íslendingur er í herbúðum Gummersbach en þeir hafa verið fjölmargir í gegnum tíðina. Alfreð Gíslason þjálfaði liðið í tímabili og þeir Guðjón Valur Sigurðsson og Sverre Jakobsson hafa leikið með því. Nú síðast lék línumaðurinn Róbert Gunnarsson þar á síðasta keppnistímabili.