Kvennalið Selfoss hefur nánast tryggt sér sæti í úrslitakeppni 1. deildarinnar í knattspyrnu eftir 1-1 jafntefli við Fjölni í Grafarvogi á föstudagskvöld.
Fjölnisliðið var sterkara framan af leiknum og þær komust yfir um miðjan fyrri hálfleik.
Fjölnisliðið lék þéttan varnarleik gegn öflugum sóknarmönnum Selfoss og varnarlína þeirra gulu steig ekki mörg feilspor. Liðið gleymdi sér hinsvegar einu sinni rétt fyrir hálfleik og það nýtti markaskorarinn mikli, Guðmunda Brynja Óladóttir, sér til fullnustu eins og hennar er von og vísa og jafnaði leikinn í 1-1.
Hvorugu liðinu tókst að bæta við marki í síðari hálfleik þrátt fyrir ágætar tilraunir og lokatölur því 1-1.
Selfoss hefur nú 25 stig í efsta sæti riðilsins og vantar aðeins eitt stig til þess að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni þegar þrjár umferðir eru eftir. Fjölnir er í 3. sæti riðilsins og getur jafnað Selfoss að stigum vinni þær alla sína leiki og Selfoss tapar öllum sínum. Miðað við úrslit sumarsins eru litlar líkur á því að það gerist en Selfoss á eftir að mæta Tindastól, Fram og Haukum.
Frétt Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?id=111908#ixzz1T17FwKTd