Sunnlendingar náðu góðum árangri á Evrópumeistaramótinu í crossfit sem fram fót í Bolton á Englandi um síðustu helgi.
Um 200 þátttakendur tóku þátt í mótinu en Íslendingarnir sem tóku þátt stóðu sig mjög vel og eru meðal þeirra fremstu í Evrópu.
Númi Snær Katrínarson, frá Stokkseyri, keppti í einstaklingskeppni karla og hafnaði í 6. sæti. Hvergerðingurinn Ragna Hjartardóttir, sem æfir hjá Crossfit Reykjavík, keppti í einstaklingskeppni og hafnaði í 16. sæti.
Í liðakeppninni var íslenskt lið, Crossfit Sport sem fagnaði fyrsta sæti og íslenska liðið Crossfit BC í því þriðja. Meðal liðsmanna Crossfit BC er Selfyssingurinn Daði Hrafn Sveinbjarnarson.
Lið Crossfit Reykjavíkur hafnaði í 4. sæti en í liðinu er Stokkseyringurinn Heiðar Ingi Heiðarsson. Árangur liðsins verður að teljast mjög góður þar sem liðið keppti einum einstaklingi færri vegna meiðsla.
Annie Mist Þórisdóttir sigraði í einstaklingskeppni kvenna en tók ekki vinningssæti þar sem hún hefur þegar tryggt sér þátttökurétt á heimsleikunum í Crossfit sem fram fara í júlí í Kaliforníu. Helga Torfadóttir hafnaði í 3. sæti kvenna og Elvar Þór Karlsson í 3. sæti karla.
Ísland átti því tvo einstaklinga á verðlaunapalli og tvö lið sem verður að segjast hreint frábær árangur. Efstu þrjú sætin gefa þátttökurétt á heimsleikunum.