Logi Ólafsson, þjálfari Selfoss, var ánægður með sína menn eftir 1-0 sigur á Leikni í 1. deildinni í kvöld.
„Þetta var hörku leikur og við vissum að hann yrði með þessum hætti. Þeir hafa lifnað við eftir að Zoran tók við og það er komið gott skipulag á þeirra lið. Við vissum að við þyrftum á öllum okkar styrk að halda til að vinna leikinn,“ sagði Logi.
„Ég er ánægður með að við héldum einbeitingu allan tímann, við héldum markinu hreinu og sköpuðum nokkur færi sem við hefðum getað farið betur með en það tókst ekki í dag. Þolinmæðin þrautir vinnur allar og það má segja að það hafi verið niðurstaðan í leiknum.“
Eftir leikinn er Selfoss í 2. sæti með sjö stiga forskot á Hauka sem eiga leik til góða. „Fjögurra stiga munur er ekki neitt í þessu. Það þarf ekki mikið að gerast til að forskotið glatist en þetta heldur okkur á tánum,“ segir þjálfarinn.
Selfoss mætir HK í næstu umferð þar sem Babacar, Arilíus og Einar Ottó eru allir í leikbanni. „Það eru höggvin skörð í okkar raðir í næstu umferð og sem betur fer höfum við styrkt okkur aðeins og við eigum menn sem koma inn í staðinn. Ég er ánægður með nýju leikmennina. Ivar er vel skólaður hjá Rosenborg og Peter leysti frumraun sína ágætlega hér í kvöld. Svo eigum við Ingólf inni þannig að það er ekki bara samkeppni um sæti í liðinu heldur líka stöður á vellinum,“ sagði Logi að lokum.