Ágúst Guðmundsson, þjálfari Hamars, var heldur betur sáttur við sitt lið sem fór á kostum gegn Keflavík í 95-63 sigri í dag.
„Við vitum að Keflavík er gott lið með mikla hefð og þetta var virkilega mikilvægur leikur fyrir okkur. Við vildum vinna eins stórt og mögulegt er og spiluðum bara virkilega vel. Þetta var meiriháttar leikur hjá okkur,“ sagði Ágúst í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Fyrstu mínúturnar vantaði kraft í vörnina hjá okkur en við löguðum það og eftir það var vörnin að virka mjög vel. Varnarleikurinn hefur verið að stríða okkur í vetur en ég lagði þetta upp mjög svipað og venjulega. Við höldum bara áfram að vinna í okkar markmiðum eins og við höfum gert frá því í haust og nú erum við að nálgast þau.“
Hamarskonur luku því fyrsta hluta mótsins ósigraðar í 14 leikjum en nú verður deildinni skipt upp í tvo fjögurra liða riðla.