Meisam Rafiei, þjálfari taekwondodeildar Umf. Selfoss, tryggði sér á dögunum Norðurlandameistaratitilinn í taekwondo í -58 kg flokki.
Mótið fór fram í Vejle í Danmörku fyrr í janúar. Ísland sendi fjóra keppendur til leiks og náði landsliðið sínum besta árangri frá upphafi á NM.
Meisam keppti gegn sterkum dönskum keppanda í úrslitum og stjórnaði bardaganum allan tímann. Þrátt fyrir að mæta meiddur til leiks og vera á einum fæti lét Meisam það ekki hafa áhrif á sig og vann bardagann 5-1. Frábær frammistaða hjá Meisam og fulltrúar Dana á mótinu stukku á hann eftir bardagann og buðu honum í æfingabúðir í Kaupmannahöfn með danska landsliðinu.
Íslendingar unnu þrjú gull á mótinu því auk Meisam náðu þær Ingibjörg Erla Grétarsdóttir og Sara Magnúsdóttir úr BR í gullverðlaun.