Handknattleiksdeild og knattspyrnudeild Selfoss eru deildir ársins 2019 hjá Ungmennafélagi Selfoss og deila því hinum eftirsótta UMFÍ bikar.
Þetta var tilkynnt á aðalfundi félagsins fyrir árið 2019, sem loksins tókst að halda í fjarfundi þann 16. september síðastliðinn. Verðlaunaafhendingin fór þó ekki fram fyrr en í gærkvöldi.
Öllum er í fersku minni Íslandsmeistaratitill í handknattleik og bikarmeistaratitill í knattspyrnu sem unnust árið 2019 og taldi stjórn félagsins ómögulegt að gera upp á milli þessara stærstu afreka í sögu félagsins.
Það þótti við hæfi að Viktor Pálsson formaður Umf. Selfoss afhenti Þóri Haraldssyni, formanni handknattleiksdeildar, og Jóni Steindóri Sveinssyni, formanni knattspyrnudeildar, UMFÍ bikarinn við heimili þeirra en svo skemmtilega vill til að þeir Þórir og Jón búa hlið við hlið í Grundunum á Selfossi.