Meistararnir kláruðu botnliðið

Luciano Massarelli skoraði 27 stig í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Þórs heimsóttu nafna sína í Þór Akureyri í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Liðin eru á sitthvorum enda töflunnar en meistararnir þurftu að halda vel á spöðunum til þess að landa 88-95 sigri.

Þorlákshafnar-Þórsarar byrjuðu betur í leiknum en heimamenn kláruðu 1. leikhluta vel og jöfnuðu 24-24. Í 2. leikhluta hittu Ölfusingar vel og náðu þrettán stiga forskoti en staðan í hálfleik var 44-55.

Í 3. leikhluta hljóp aftur spenna í leikinn, heimamenn luku honum á 12-3 áhlaupi og jöfnuðu 70-70, en í upphafi 4. leikhluta svaraði Þór Þorlákshöfn strax fyrir sig, náði frumkvæðinu aftur og leiddi allt til loka.

Þórsarar fengu gott framlag frá mörgum leikmönnum í kvöld en fremstur í flokki fór Luciano Massarelli sem skoraði 27 stig og tók 7 fráköst. Glynn Watson skoraði 18 stig, Davíð Arnar Ágústsson og Daniel Mortensen voru báðir með 11 stig og Kyle Johnson skoraði 9 stig og tók 12 fráköst.

Þór Þorlákshöfn er ennþá í toppsæti deildarinnar, nú með 28 stig, en Njarðvíkingar sem eru í 2. sæti eru tveim stigum á eftir með leik til góða. Akureyrar-Þórsarar eru í botnsæti deildarinnar með 2 stig.

Fyrri greinSveitarfélagið mun fylgja málinu fast eftir
Næsta greinLoksins sigraði Hamar – Selfoss tapaði í framlengingu