Íslandsmeistarar Selfoss fóru á kostum í kvöld og galopnuðu toppbaráttuna í Olísdeild karla í handbolta með frábærum heimasigri gegn Aftureldingu, 35-27.
Selfossliðið var verðlaunað fyrir leik sem Sunnlendingar árins 2019 á sunnlenska.is og það veitti liðinu greinilega innblástur því þeir tóku fljótlega frumkvæðið í leiknum og leiddu 7-4 eftir 12 mínútna leik. Munurinn hélst svipaður næstu mínútur en góður 4-1 kafli Selfoss skilaði þeim sex marka forskoti í fyrri hálfleik, 14-8, en staðan var 19-14 í leikhléi.
Íslandsmeistararnir héldu Aftureldingu í öruggri fjarlægð allan seinni hálfleikinn og uppskáru að lokum sanngjarnan sigur, 35-27.
Haukur Þrastarson var markahæstur Selfyssinga með 11/2 mörk og 7 stoðsendingar, Magnús Öder Einarsson skoraði 6 mörk og var með 100% skotnýtingu, Einar Sverrisson og Alexander Egan skoruðu báðir 5 mörk úr 7 skotum, Atli Ævar Ingólfsson var öruggur á línunni með 4 mörk, Ísak Gústafsson skoraði 2 og þeir Hannes Höskuldsson og Daníel Karl Gunnarsson skoruðu 1 mark hvor.
Alexander Hrafnkelsson varði 14 skot í marki Selfoss og var með 36% markvörslu.
Selfoss er nú í 4. sæti deildarinnar með 23 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Hauka, en í 2. og 3. sæti eru FH og Valur með 24 stig og Valur á einn leik til góða á hin liðin.