Meistararnir sterkari á Selfossi

Darian Powell skoraði mark Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði 1-4 þegar Íslandsmeistarar Breiðabliks komu í heimsókn á Selfossvöll í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Við erum að spila á sama tempói og þær þó svo að við mættum vera aðeins klókari en föstu leikatriðin voru að svíkja okkur. Við hlupum af okkur rassgatið og gerðum okkar allra besta og ég er stoltur af stelpunum,” sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik. 

Blikar mættu ákveðnir til leiks með sitt firnasterka sóknarlið og strax á 8. mínútu kom Berglind Björg Þorvalsdóttir þeim yfir með skallamarki. Hún stal svo boltanum af Brynju Valgeirsdóttur í öftustu línu Selfoss á 27. mínútu og lagði hann fyrir Alexöndru Jóhannsdóttur sem skoraði.

Selfyssingar hresstust nokkuð undir lok fyrri hálfleiks og á 34. mínútu minnkaði Darian Powell muninn eftir misskilning í vörn Breiðabliks en Powell kláraði færið vel. Staðan var þó ekki 1-2 nema í átta mínútur því Hildur Antonsdóttir kom Blikum í 1-3 á lokametrum fyrri hálfleiks.

Seinni hálfleikurinn var mun jafnari. Selfossliðið leit vel út í upphafi en náði ekki að nýta sóknir sínar. Þegar leið á leikinn fékk Breiðablik aftur pláss til að athafna sig og á 82. mínútu skoraði Agla María Albertsdóttir fjórða mark þeirra og innsiglagði sigurinn.

Breiðablik er á toppi deildarinnar með fullt hús en Selfoss er enn án stiga. Næsti leikur liðsins er gegn HK/Víkingi á útivelli næstkomandi mánudagskvöld.

Fyrri grein„Ætluðum að keyra yfir þá“
Næsta greinStyrkjum úr íþrótta- og afrekssjóði úthlutað í fyrsta sinn