Íslandsmeistarar Þórs unnu öruggan sigur á nýliðum Vestra í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld, 100-77, á heimavelli.
Þór hafði frumkvæðið í fyrri hálfleik og leiddi 44-34 í leikhléi. Þeir grænu gerðu svo út um leikinn í 3. leikhluta þar sem þeir spiluðu frábærlega í vörn og sókn og í upphafi 4. leikhluta var staðan orðin 79-52. Þórsarar héldu Vestramönnum svo í öruggri fjarlægð allan fjórða leikhlutann.
Daniel Mortensen var stigahæstur Þórsara með 27 stig og 11 fráköst. Ronaldas Rutkauskas skoraði 14 stig og tók 13 fráköst og Davíð Arnar Ágústsson skoraði 12 stig. Þar á eftir komu Glynn Watsson með 11 stig og 11 stoðsendingar og þeir Luciano Massarelli og Tómas Valur Þrastarson sem skoruðu báðir 10 stig, auk þess sem Massarelli sendi 9 stoðsendingar.