Melsungen kynnir Elvar til leiks

Elvar Örn Jónsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þýska handknattleiksliðið MT Melsungen staðfesti í gær að Selfyssingurinn Elvar Örn Jónsson verður leikmaður félagsins næstu tvö ár frá og með 1. júlí í sumar.

Fréttir af félagaskiptunum spurðust út í janúar á meðan á heimsmeistaramótinu í handbolta stóð, en fengust þó ekki staðfestar – fyrr en nú.

Elvar Örn leikur með Skjern í Danmörku í dag en hann hélt þangað sumarið 2019 eftir að Selfyssingar urðu Íslandsmeistarar í handbolta og Elvar var valinn besti leikmaður Olísdeildarinnar.

„Ég hlakka til að komast til Melsungen og spila í bestu deild í heimi,“ segir Elvar Örn í tilkynningunni frá félaginu. Og þar á bæ eru menn spenntir fyrir komu Elvars, enda sé hann fjölhæfur sóknarmaður og sterkur varnarmaður sem þegar hefur talsverða alþjóðlega reynslu þrátt fyrir að vera aðeins 23 ára gamall.

Fyrri greinUndirbúa hönnun kennslusundlaugar við Sunnulækjarskóla
Næsta greinReykir verði fremstir í flokki á alþjóðlegum mælikvarða