Þýska handknattleiksliðið MT Melsungen staðfesti í gær að Selfyssingurinn Elvar Örn Jónsson verður leikmaður félagsins næstu tvö ár frá og með 1. júlí í sumar.
Fréttir af félagaskiptunum spurðust út í janúar á meðan á heimsmeistaramótinu í handbolta stóð, en fengust þó ekki staðfestar – fyrr en nú.
Elvar Örn leikur með Skjern í Danmörku í dag en hann hélt þangað sumarið 2019 eftir að Selfyssingar urðu Íslandsmeistarar í handbolta og Elvar var valinn besti leikmaður Olísdeildarinnar.
„Ég hlakka til að komast til Melsungen og spila í bestu deild í heimi,“ segir Elvar Örn í tilkynningunni frá félaginu. Og þar á bæ eru menn spenntir fyrir komu Elvars, enda sé hann fjölhæfur sóknarmaður og sterkur varnarmaður sem þegar hefur talsverða alþjóðlega reynslu þrátt fyrir að vera aðeins 23 ára gamall.