Merkisdagur í sögu Umf. Selfoss

Heiðursfélagar ungmennafélagsins munduðu skóflurnar (f.v.) Guðmundur Kr. Jónsson, Sigurður Jónsson, Tómas Jónsson, Björn Gíslason og Kristján Jónsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í dag var tekin fyrsta skóflustungan að fjölnota íþróttahúsi á íþróttavellinum á Selfossi. Það dugði reyndar ekkert minna en að beita 21 stunguskóflu til verksins.

Fremstir í flokki við þessa athöfn voru heiðursfélagar ungmennafélagsins en einnig munduðu skóflurnar stjórnarmenn og starfsmenn ungmennafélagsins, starfsmenn sveitarfélagsins, bæjarfulltrúar, hönnuðir og velunnarar.

„Þetta er fyrsti áfanginn í fyrirhugaðri íþróttamiðstöð sem telur 20 þúsund fermetra í heildinni en þessi fyrsti áfangi er 6.500 fermetrar. Þetta eru mjög metnaðarfullar og stórar tillögur og verður mikil lyftistöng fyrir starfsemi ungmennafélagsins. Selfoss er mjög metnaðarfullt félag og ein af grunnstoðunum í okkar samfélagi,“ sagði Tómas Ellert Tómasson, formaður eigna- og veitunefndar Árborgar, eftir skóflustunguna.

Samið við Ístak um byggingu hússins
Ístak hf átti lægsta tilboðið í byggingu hússins 1.119 milljónir króna og er sveitarfélagið nú að ljúka samningi við Ístak um verkið. Jarðvinna mun hins vegar hefjast strax eftir helgi en Þjótandi ehf var lægstbjóðandi í þann hluta með boð upp á 122,7 milljónir króna.

Í þessum fyrsta áfanga hússins er hálfur knattspyrnuvöllur og aðstaða fyrir frjálsar íþróttir og mun húsið rísa við suðurenda núverandi gervigrasvallar.

Reiknað er með að húsið sjálft verði tilbúið til notkunar 1. ágúst 2021.

Þetta er langhlaup
Viktor S. Pálsson, formaður Umf. Selfoss, segir daginn í dag merkisdag í sögu félagsins. „Nú erum við að hefja fyrsta áfanga í mjög stóru verki sem við viljum auðvitað að muni rísa á sem skemmstum tíma, en við gerum okkur grein fyrir því að þetta er langhlaup. En þetta eru mikil tímamót og það er vert að þakka bæjarfélaginu sérstaklega fyrir þennan góða stuðning sem ungmennafélaginu er veittur með þessu nýja húsi,“ sagði Viktor.

Tuttugu og ein stunguskófla á lofti. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Í fyrsta áfanga er hálfur knattspyrnuvöllur og aðstaða fyrir frjálsar íþróttir.
Fyrri greinTvö glímumót á Hvolsvelli á morgun
Næsta greinBergrún Anna hreppti Hljóðkútinn