Mest lesnu íþróttafréttir ársins 2017

Í mest lesnu íþróttafréttum ársins 2017 koma meðal annars við sögu Hrafnhildur Hanna, Kristín Laufey, Addi Braga, Alli Matt, Patti, Kristrún og Viðar Kjartans.

1. Haukar kæra leikinn gegn Selfossi
Tapsárir Haukar kærðu leik Selfoss og Hauka í Olísdeild kvenna í handbolta sem fram fór í janúar. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir spilaði síðustu tvær mínútur leiksins í treyju af systur sinni, eftir að Haukarnir rifu treyju Hönnu. Haukarnir enduðu á að draga kæruna til baka enda vakti hún mikla furðu í handboltaheiminum. Nokkrum dögum eftir þetta atvik kom upp stórt treyjumál í viðureign Mílunnar og ÍBV-U í 1. deild karla, en hvorugt liðið lagði fram kæru.

2. „Ólýsanleg tilfinning að hlaupa rauða dregilinn“
Kristín Laufey Steinadóttir frá Selfossi náði í haust öðrum besta tíma sem íslensk kona hefur náð í Ironman vegalengd, svokölluðum Járnmanni. „Síðustu kílómetrarnir og sérstaklega lokametrarnir á leið í markið verða þó að teljast hápunkturinn. Ólýsanleg tilfinning að hlaupa rauða dregilinn í áttina að markinu eftir langan og strembinn dag,“ sagði Kristín Laufey í samtali við sunnlenska.is.

3. „Risastór áfangi fyrir ungmennafélagið og sveitarfélagið
Fulltrúar Sveitarfélagsins Árborgar og knattspyrnudeildar Ungmennafélags Selfoss skrifuðu í desember undir viljayfirlýsingu um samstarf um uppbyggingu knatthúss á Selfossvelli. Samkvæmt viljayfirlýsingunni munu byggingarframkvæmdir hefjast á næsta árið og að húsið verði formlega tekið í notkun árið 2019.

4. Leikur KFR og Afríku flautaður af eftir tíu mínútur
Furðuleg uppákoma átti sér stað í leik Afríku og KFR í 4. deild karla í knattspyrnu í júní en leikurinn var flautaður af eftir tíu mínútur. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því í stuttu máli hvernig þessi sirkus fór fram, þannig að þið smellið bara á fréttina og lesið.

5. Suðurlandins eina von í Stokkseyri
Stærstu félagaskipti ársins í íslenskri knattspyrnu voru óneitanlega þau tíðindi sem urðu í maí þegar Arilíus Marteinsson gekk í raðir Stokkseyrar. Ekki kom þó til þess að Arilíus léki með Stokkseyringum í 4. deildinni, enda var árangur liðsins undir væntingum og líklegt að þeir hefðu klifið hærra á stigatöflunni ef Suðurlandsins eina von hefði verið með.

6. Selfyssingar bikarmeistarar í 4. flokki
Á síðasta keppnistímabili náði árgangur 2001 í 4. flokki karla í handbolta ótrúlegum árangri en liðið varð þrefaldur meistari; deildar-, bikar- og Íslandsmeistarar. Selfoss lagði ÍR örugglega í úrslitaleik bikarkeppninnar í febrúar og þremur mánuðum síðar var Íslandsmeistaratitillinn í húsi.

7. Patrekur ráðinn þjálfari Selfyssinga
Sunnlenska.is var fyrst til þess að greina frá því þegar handknattleiksdeild Selfoss réði Patrek Jóhannesson sem þjálfara karlaliðs Selfoss í apríl. Patrekur, sem er fyrrum landsliðsmaður í handknattleik, er gríðarlega reynslumikill þjálfari og undir hans stjórn hefur Selfyssingum gengið mjög vel í Olísdeildinni í vetur.

8. „Þakklát fyrir að hafa boðist þetta tækifæri“
Knattspyrnukonan Kristrún Rut Antonsdóttir var lykilmaður í liði Selfoss í sumar þegar liðið endurheimti sæti sitt í Pepsi-deildinni. Hún var valin leikmaður ársins hjá Selfossi annað árið í röð og að loknu keppnistímabilinu gerðist hún atvinnumaður á Ítalíu og samdi við S.S. Chieti Calcio í Serie B, þar sem henni hefur einnig gengið vel.

9. Sjáðu þrennu Viðars – markahæstur í Ísrael
Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson skoraði öll mörk Maccabi Tel Aviv í 3-0 sigri á Hapoel Ironi Kiryat Shmona í ísraelsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í febrúar. Viðar hefur átt frábæru gengi að fagna í Ísrael en hann er markahæsti atvinnumaður okkar Íslendinga í knattspyrnu á árinu 2017.

10. „Langar að spóla áfram og komast til Rússlands núna“
Jón Daði Böðvarsson var þreyttur en sáttur þegar sunnlenska.is ræddi við hann að loknum leik Íslands og Kósóvó í undankeppni HM í knattspyrnu í október. Ísland sigraði 2-0 og tryggði sig inn á Heimsmeistaramótið í fyrsta sinn. „Við trúum því að við getum unnið alla í heiminum. Mig langar bara til þess að spóla áfram og komast til Rússlands núna,“ sagði Jón Daði léttur.

Fyrri greinSigríður Sæland er Sunnlendingur ársins 2017
Næsta greinGleðilegt nýtt ár!