Um síðustu helgi fór Set-mótið í knattspyrnu fram í fjórða sinn á Selfossi. Mótið er haldið fyrir yngra árið í 6. flokk drengja og hefur notið síaukinna vinsælda frá því það var haldið í fyrsta sinn.
Metþátttaka var í ár, en keppendur voru um 600 talsins frá 20 íþróttafélögum og voru samtals spilaðir 447 leikir á tveimur dögum.
Keppendur létu rigningaveður ekki mikið á sig fá og var stemningin góð og fótboltinn spilaður af miklu kappi.
Í lok móts var verðlaunaafhending eins og vera ber. Verðlaun voru veitt efstu þremur liðum í hverri deild. Einnig var sérstök dómnefnd sem valdi leikmann mótsins í hverri deild fyrir sig, markmenn mótsins sem og þjálfara og dómara mótsins. Að lokum voru svo háttvísisverðlaun KSÍ og Set veitt því félagi sem þótti sýna af sér háttvísi innan sem og utan vallar.
Tveir heppnir drengir duttu í lukkupottinn þegar þeir voru dregnir út í happdrætti og unnu landsliðstreyju og legghlífar.
Þátttakendum og stuðningsmönnum var svo boðið í pylsuveislu þar sem krakkarnir voru leystir út með gjöf frá Set og UMFS; skemmtilegan bakpoka merktan mótinu sem í var HM bók og plakat.