Metin féllu á haustmóti LSÍ

Verðlaunapallurinn í karlaflokki (f.v.) Örn, Birkir og Símon. Ljósmynd/LSÍ

Anna Guðrún Halldórsdóttir, Hengli, raðaði inn Íslandsmetum og Símon Gestur Ragnarsson, Umf. Selfoss, bætti tvö Íslandsmet þegar haustmót Lyftingasambands Íslands fór fram á Selfossi á dögunum.

Anna Guðrún lyfti stönginni 36 sinnum á mótinu og setti Íslandsmet í öllum lyftum í -87 kg flokki í flokkum Masters 35, Masters 40, Masters 45 og Masters 50. Hún endaði í 50 kg í snörun, 68 kg í jafnhendingu og 118 kg í samanlögðu.

Símon Gestur setti tvö Íslandsmet í -96 kg flokki karla en hann snaraði 121 kg og er það Íslandsmet í -96 kg flokki karla í aldursflokkunum U20 og U23.

Tveir Selfyssingar komust á verðlaunapall í karlaflokki en Örn Davíðsson varð í 2. sæti með 294,16 Sinclair stig og Símon Gestur varð í 3. sæti með 288,43 Sinclair stig.

Mótið var haldið með pompi og prakt í húsnæði Crossfit Selfoss í lok september og voru strangar reglur vegna sóttvarna en allt gekk vel fyrir sig.

Úrslit mótsins:
Karlaflokkur
1. Birkir Örn Jónsson, Lyftingafélagi Garðabæjar, með 318,78 Sinclair stig.
2. Örn Davíðsson, Ungmennafélagi Selfoss, með 294,16 Sinclair stig.
3. Símon Gestur Ragnarsson, Ungmennafélagi Selfoss, með 288,43 Sinclair stig.

Kvennaflokkur
1. Amalía Ósk Sigurðardóttir, Lyftingafélagi Mosfellsbæjar, með 235,98 Sinclair stig.
2. Íris Rut Jónsdóttir, Lyftingadeild Massa, með 214,12 Sinclair stig.
3. Birta Líf Þórarinsdóttir, Lyftingafélagi Reykjavíkur, með 203,77 Sinclair stig.

Anna Guðrún Halldórsdóttir. Ljósmynd/Gunnar Biering Agnarsson
Fyrri greinMilljón krónur í hraðasektir á Mýrdalssandi um helgina
Næsta grein40 í einangrun á Suðurlandi