Fjöldi keppenda af sambandssvæði HSK tók þátt í Stórmóti ÍR í frjálsíþróttum sem haldið var í Reykjavík um síðustu helgi. Alls voru ellefu HSK met sett á mótinu.
Elín Karlsdóttir, Umf. Selfoss, stórbætti eigið HSK met í 3.000 metra hlaupi kvenna, en hún hljóp á 12:36,49 mín og bætti sig um rúmar 70 sekúndur. Þetta er einnig met í flokkum 16-17, 18-19 og 20-22 ára.
Sindri Freyr Seim Sigurðsson, Heklu, tvíbætti eigið met í 200 metra hlaupi í þremur aldursflokkum og setti þar með sex HSK met. Hann hljóp í undanrásum á 23,32 sek og á 23,28 sek í úrslitum. Ársgamalt met hans var 23,38 sek.
Þorvaldur Gauti Hafsteinsson, Selfossi, bætti HSK metið í 600 m hlaupi 13 ára stráka, hljóp á 1:44,00 mín, en ársgamalt met Goða Gnýs Guðjónssonar, Heklu, var 1:45,28 mín.
Í fyrra var farið að skrá stig í fimmtarþraut í flokkum 11 og 12 ára. Bryndís Embla Einarsdóttir, Selfossi, setti HSK met í 11 ára flokki, en hún fékk samtals 3.076 stig. Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Selfossi, setti met í 12 ára flokki með 3.708 stig.
Loks setti Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, HSK met í 400 metra hlaupi í flokki 30-34 ára, hljóp á 59,64 sek.