Metmark Dagnýjar dugði til sigurs

Dagný fagnar marki með landsliðinu. Mynd úr safni. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Dagný Brynjarsdóttir skoraði sigurmark Íslands gegn Nýja-Sjálandi á æfingamótinu SheBelives-cup sem hófst í Kaliforníu í Bandaríkjunum í nótt.

Ísland fékk hornspyrnu í fyrstu sókn leiksins og uppúr henni skoraði Dagný af stuttu færi. Boltinn lá í netinu eftir 43 sekúndur en markið er það fljótasta sem skorað hefur verið í sögu þessa móts.

Metmark Dagnýjar dugði Íslendingum semsagt til sigurs, því fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum. Ísland byrjaði leikinn af krafti en náði ekki að nýta færin og þegar leið á fyrri hálfleikinn hafði Nýja-Sjáland yfirhöndina. Seinni hálfleikurinn var tíðindalítill og sterk vörn Íslands sá til þess að sigurinn var ekki í hættu.

Sif Atladóttir, leikmaður Selfoss, var í byrjunarliðinu og átti góðan leik í vörninni. Hún var tekin útaf á 67. mínútu. Dagný spilaði allan leikinn á miðjunni og Karitas Tómasdóttir kom inná sem varamaður á lokamínútunum.

Sigurmark Dagnýjar má sjá hér fyrir neðan.

Fyrri greinKjartan stefnir á efstu sætin
Næsta greinStella fær frábærar viðtökur