Hið árlega Fríska Sólheimahlaup fór fram í blíðskaparveðri fimmtudaginn 12. september síðastliðinn. Rúmlega tuttugu félagar úr hlaupahópnum Frískum Flóamönnum, hittu heimilismenn á Sólheimum við Minni Borg í Grímsnesi og þaðan var haldið að Sólheimum.
Eftir að allir skiluðu sér í mark var athöfn í Grænu könnunni þar sem allir gæddu sér á dýrindis súpu með brauði og pestó að hætti Sólheima og Frískir Flóamenn afhentu framfarabikarinn en hann hlýtur sá íbúi á Sólheimum sem sýnt hefur mestar framfarir, góða ástundun í íþróttum eða almennri hreyfingu og hefur verið hvetjandi og fyrirmynd fyrir aðra íbúa. Að þessu sinni var það Sigtryggur Einar Sævarsson sem hlaut framfarabikarinn en margir íbúar hafa verið duglegir að hreyfa sig og stunda heilbrigðan lífsstíl svo úr vöndu var að velja. Sigtryggur er vel að bikarnum kominn.
Metþátttaka var í hlaupinu í ár eða um 40 manns sem hlupu, gengu eða hjóluðu leiðina sem er um 9 km löng. Haustlitirnir nutu sín vel á þessum fallega degi í yndislegu umhverfi við Sólheima. „Bestu þakkir fyrir góða stund og góðar móttökur, kæru íbúar á Sólheimum,“ segir í frétt frá Frískum Flóamönnum.