Fjöldi Íslandsmeta féll á Íslandsmeistaramótinu í réttstöðulyftu sem haldið var í Iðu á Selfossi í dag.
Fjórir keppendur frá Umf. Selfoss tóku þátt í mótinu og tryggðu sér tvö gullverðlaun og tvö silfur.
Rósa Birgisdóttir fór létt með að tryggja sér sigur í +90 kg flokki kvenna þar sem hún setti nýtt Íslandsmet, lyfti 142,5 kg og átti nóg eftir.
Bryndís Ólafsdóttir setti sömuleiðis Íslandsmet, í flokki 40-49 ára, en hún lyfti 130 kg og sigraði í -82,5 kg flokki.
Ástmundur Sigmarsson og Daníel Geir Einarsson unnu báðir til silfurverðlauna. Ástmundur í -100 kg flokki þar sem hann lyfti 240 kg og Daníel í +125 kg flokki þar sem hann lyfti 250 kg.
Einn Sunnlendingur til, Edda Ósk Tómasdóttir, varð í 3. sæti í -75 kg flokki en hún fór létt með að lyfta 115 kg. Edda Ósk keppir undir merkjum Breiðabliks.
Júlían J.K. Jóhannsson og Auður Anna Jónsdóttir, bæði úr Ármanni urðu stigameistarar í karla og kvennaflokki og lið Massa úr Reykjanesbæ sigraði í liðakeppninni.
Kraftlyftingadeild Umf. Selfoss sá um mótahaldið og var stemmningin góð í Iðu í dag.