„Ég er ánægður með að við kláruðum þetta. Við leiddum allan leikinn og mér fannst við eiga þetta skilið.“
Þetta sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs Þorlákshöfn, eftir góðan 92-83 sigur á Grindavík í Domino’s-deild karla í körfuknattleik í kvöld.
„Við vorum farnir að gera okkur erfitt fyrir undir lokin þar sem við skorum ekki körfu utan af velli í níu mínútur og þeir ná að jafna. En um leið og við náðum einni körfu til að brjóta ísinn þá fór þetta að rúlla aftur,“ sagði Benedikt sem var ánægður með varnarleik liðsins.
„Mér fannst vera sama viðhorf í vörninni og einkenndi okkur í fyrra og það er það sem við þurfum að fara á. Það eru lið í deildinni með fleiri landsliðsmenn og skorara en við en við þurfum að vera með sterka liðsvörn til þess að ná langt.“
Heilt yfir var Benedikt ánægður með ástandið á liðinu í kvöld. „Það er október og miðað við tímapunkt þá getur maður ekki kvartað mikið.“