Nú eru einungis þrír dagar eftir af forsölu á Landsmót hestamanna en forsölunni lýkur á sunnudaginn. Fjöldi hestamanna hefur nú þegar tryggt sér miða á verulegum afslætti.
„Já forsalan hefur gengið vel og tók mikinn kipp strax eftir páska, núna síðustu daga hefur miðasölukerfið svo nánast verið rauðglóandi enda margir sem ætla að nýta sér forsöluna og spara sér þannig umtalsverðan pening,“ segir Anna Lilja Pétursdóttir hjá Landsmóti hestamanna.
Hún segir þónokkuð um það að útlendingar kaupi sér miða og blæs þannig á þær sögur um að mótið verði útlendingalaust. „Við sjáum hvar í heiminum hver miði er keyptur og það kom okkur skemmtilega á óvart að útlendingarnir voru fljótir að taka við sér þegar miðasalan fór í gang, í raun í fljótari en Íslendingarnir en fyrstu daga seldum við nær eingöngu miða til útlendinga. Það hefur svo aðeins snúist við núna en Íslendingarnir voru margir hverjir búnir að tryggja sér hjólhýsastæði í tíma en eru svo að kaupa miðana núna, það má því segja að salan sé frekar tvískipt.“
Anna Lilja segist einnig greina umtalsverða aukningu hvað varðar eftirspurn eftir hjólhýsastæðum með rafmagni en einnig almennar fyrirspurnir um tjaldsvæði á Vindheimamelum. „Við höfum það aðeins á tilfinningunni að mótið í ár verði meira útilegumót en fyrri Landsmót hafa verið, fólk er mikið að hringja og spurja út í aðbúnað á tjaldsvæðunum, hvort það megi koma með sitt eigið gasgrill og annað slíkt.“
Það er þó rétt að taka það fram að fyrir þá sem enn eru að leita sér að gistingu að inni á vef Landsmót er yfirlit yfir laus gistipláss í námunda við Vindheimamela, sem og listi yfir lausar stíur sem eru til útleigu fyrir aðkomuhross. Hjólhýsastæði með aðgengi að rafmagni rjúka út og því um að gera að ganga frá þeim kaupum sem fyrst en öll stæði á neðra svæði eru nú þegar uppseld.