Miðasala á Landsmót hestamanna fer vel af stað

Á Landsmóti hestamanna. Mynd úr safni.

Á skrifstofu Landssambands hestamannafélaga er mikið um að vera um þessar mundir en miðasala á Landsmót hestamanna á Hellu í júlí á næsta ári, er komin á fullt skrið.

Landsmót hestamanna er einn stærsti íþróttaviðburður sem haldinn er á Íslandi og endurspeglar ágætlega fjölda iðkenda en gestir mótanna eru jafnan á bilinu 8-12 þúsund og þar af er fjöldi erlendra gesta á bilinu 2-3 þúsund frá um það bil tuttugu löndum.

Anna Lilja Pétursdóttir framkvæmdastjóri stýrir verkefnum Landsmóts og hún segir miðasöluna fara vel af stað, enda forsöluverð í gangi til áramóta. „Það þýðir að félagar í Bændasamtökunum og Landssambandi hestamannafélga geta keypt vikupassa á Landsmótið á Hellu á 12.000 kr. á vefnum www.landsmot.is allt til áramóta. Hagsýnt fólk er nú þegar farið að nýta sér þetta, kaupir miða fyrir sig og sína. Einnig er hægt að kaupa hjá okkur fallegt gjafabréf ef menn vilja setja miða í jólapakka hestamannsins.“

Sunnlendingar eru sömuleiðis að undirbúa Landsmótið næsta sumar, enda gestir þegar farnir að panta sér gistingu og skoða þá möguleika sem Hella og nágrenni hafa upp á að bjóða. Þá hefur verið mynduð framkvæmdanefnd með fulltrúum úr hestamannafélögum á Suðurlandi, ásamt fulltrúum frá Landsmóti.

Anna Lilja segir slíka nefnd hafa verið starfrækta fyrir mótið í Reykjavík og það hafi gefið góða raun, mikil og góð hugmyndavinna sem þar átti sér stað og því sé vonast eftir álíka árangri í vetur.

„Það skiptir okkur líka máli að geta leyft heimamönnum að taka þátt í undirbúningi og hugmyndavinnu fyrir mótið. Landsmót er eign allra hestamanna og margir sem vilja hafa eitthvað um það að segja. Við eigum öll að vilja koma að mótinu með einum eða öðrum hætti.“

Fyrri greinFSu gaf eftir í lokin
Næsta greinEden og tívolílóðir undir ferðaþjónustu