Miðfellshlaupið verður haldið þann 1. júní næstkomandi kl. 11 á Flúðum. Það er almennings„hlaup“ fyrir alla, óháð aldri og getu.
Miðfellshlaupið er verkefni sem er hugsað til að hvetja til almennrar hreyfingar og heilsueflingar. Hlaupið er unnið í samstarfi við Heilsueflandi samfélag í Hrunamannahreppi og í ár verður hlaupið til styrktar vinnustofu VISS á Flúðum.
VISS á Flúðum er sértækt þjónustuúrræði og jafnframt vinnustaður fyrir fatlað fólk og fólk með skerta starfsgetu frá 18 ára aldri þar sem veitt er hæfing, félagsþjálfun, starfsþjálfun og vernduð vinna. „Enginn getur allt en allir geta eitthvað,“ er haft til hliðsjónar í öllum þáttum starfsins á VISS og sú kjörorð eiga einnig við þegar fólk hefur hug á heilsueflingu.
Boðið verður upp á fjórar vegalengdir sem eru 1,2 km, 3 km, 5 km og 10 km og getur fólk ýmist gengið, skokkað eða hlaupið. Hlaupaleiðin liggur milli íþróttahúss á Flúðum og Miðfellshverfisins, og fylgir reiðveg og malarveg meðfram Miðfelli að vestanverðu. Hér má sjá myndband af leiðinni.
Það verður ekki rásnúmer eða tímataka en það verður markklukka þar sem þátttakendur geta séð tíma sinn þegar í mark er komið. Þátttökugjald er í formi greiðsluseðils í heimabanka að hlaupi loknu. Boðið verður uppá hressingu og allir þátttakendur fá ókeypis í sund. Auk þess sem dregið verður úr hópi þátttakenda og munu þeir heppnu hreppa veglega vinninga.