Umf. Selfoss átti tvo keppendur á afmælismóti Júdósambands Íslands 2025 í aldursflokkum U18 og U21 árs, sem haldið var hjá Judofélagi Reykjavíkur síðastliðinn laugardag.
Þau Mikael Kári Ibsen Ólafsson og Ella Marlene Rogge kepptu bæði í flokkum U18 og U21.
Mikael átti góðan dag en hann vann tvær glímur í U18 og náði þar í gullverðlaun. Hann nældi sér síðan í silfur í U21 og vann þar þrjár af fjórum glímum. Mikael vann allar glímur sínar á köstum og sýndi hann miklar framfarir á mótinu.
Ella Marlene sýndi sömuleiðis flotta frammistöðu en hún hefur aðeins æft júdó í eitt ár og var að keppa á sínu fyrsta móti. Hún varð í 2.sæti í U18 flokknum og í 3. sæti í U21.

