Hamar er í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppni 4. deildar karla í knattspyrnu en í kvöld varð liðið af mikilvægum stigum þegar það tapaði 2-1 gegn toppliði Ýmis.
Ýmismenn byrjuðu leikinn betur og komust yfir strax á 5. mínútu. Þeir bættu svo við öðru marki undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 2-0 í leikhléinu. Seinni hálfleikurinn var í járnum og Sören Balsgaard náði að minnka muninn fyrir Hamar á 63. mínútu. Hvergerðingar reyndu að finna jöfnunarmarkið á lokakaflanum en það tókst ekki.
Hamar er í 3. sæti D-riðilsins með 26 stig, eins og GG, sem er í 2. sætinu með jafnmörg stig. GG á eftir að mæta botnliði Smára og Ými á meðan Hamar heimsækir KFR í lokaumferðinni.