Einar Ottó Antonsson átti góðan leik fyrir Selfoss í kvöld gegn Breiðablik og skoraði glæsilegt jöfnunarmark í síðari hálfleik.
„Það voru þrælmikil batamerki á þessu frá síðustu leikjum og í fyrsta skipti í langan tíma getum við sagt að þetta féll ekki með okkur,“ sagði Einar Ottó í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Við vorum alveg inni í leiknum þangað til þeir skora þriðja markið. Við fengum færin og staðan er 2-1 þegar Sævar brenndi af á línu. Mér finnst að við hefðum átt að fá meira út úr þessum leik,“ sagði Einar sem var ánægður með markið sem hann skoraði.
„Já, þetta var gríðarlega gott mark, ég er mjög ánægður með það en um leið fúll að það taldi ekki neitt. Ég var sáttur við minn leik alveg fram á 70. mínútu. Þá fór ég að þreytast og gera mistök. Þriðja markið þeirra var gjöf frá mér þegar við erum að reyna að sækja hratt og ég hefði átt að gera betur þar,“ segir Einar Ottó.
Selfyssingar þurftu að gera þrjár breytingar á varnarlínunni en Einar er ánægður með mennina sem fylltu í skörðin þar. „Það ef vont að hræra í öftustu línu en þeir stóðu sig mjög vel. Ég var líka ánægður með samvinnu okkar Jóns á miðjunni. Þetta var fyrsti leikurinn okkar saman síðan í fyrrasumar og vonandi getum við bætt okkur enn frekar.“
„Við vorum að spila við gott lið og ef við nýtum ekki færin og gefum aulamörk þá er okkur refsað. Við missum samt ekkert hausinn við þetta. Það er mikilvæg leikjatörn framundan gegn liðum sem við eigum að geta hirt stig af. Ef við ætlum að halda okkur í deildinni þá verðum við að fara að gera það.“