Körfuknattleiksfélag FSu vann gríðarlega mikilvægan sigur á Ármanni í botnbaráttu 1. deildar karla í kvöld. Lokatölur voru 88-104.
Fyrsti leikhlutinn var hnífjafn en Ármann leiddi að honum loknum, 18-16. Ármann náði 11 stiga forskoti í 2. leikhluta, 31-20, en FSu svaraði strax fyrir sig. FSu jafnaði með 15-4 leikkafla og bættu svo enn frekar í til þess að leiða í hálfleik, 39-46.
FSu hafði frumkvæðið í 3. leikhluta en staðan var 66-76 að honum loknum. Selfyssingarnir settu svo í fluggírinn í 4. leikhluta og kláruðu leikinn sannfærandi, 88-104.
Sæmundur Valdimarsson var besti leikmaður FSu í kvöld með 31 stig og 11 fráköst. Kjartan Kjartansson skoraði 21, Bjarni Bjarnason 20, Orri Jónsson 18 og Svavar Stefánsson 10.