Hamar vann gríðarlega mikilvægan sigur á Álftanesi í toppbaráttu D-riðils 4. deildar karla í knattspyrnu á Grýluvelli í kvöld.
Hvergerðingar byrjuðu betur í leiknum og Tómas Hassing kom þeim yfir á 16. mínútu. Tíu mínútum síðar bætti Tómas við öðru marki fyrir Hamar og staðan var 2-0 í hálfleik.
Það var hart barist í síðari hálfleik en mörkin létu á sér standa, allt þar til á 79. mínútu að Álftnesingar minnkuðu muninn. Þrátt fyrir góðar tilraunir beggja liða urðu mörkin ekki fleiri og Hamarsmenn fögnuðu mikilvægum stigum.
Með sigrinum fór Hamar upp í 2. sæti riðilsins, uppfyrir Álftanes, og hefur nú 14 stig. KH er í toppsætinu með 16 stig og Álftanes hefur þrettán stig í 3. sæti. Nú þegar keppnin í riðlinum er hálfnuð er ljóst að þessi þrjú lið munu berjast um toppsætin tvö sem gefa farmiða í úrslitakeppnina.