FSu vann góðan sigur á Breiðabliki í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi, 82-78. FSu veitti ekki af stigunum enda er liðið í harðri botnbaráttu.
1. leikhluti var hnífjafn en undir lok hans náðu Blikar 9-2 áhlaupi og leiddu að loknum 1. leikhluta, 22-28. Blikar voru skrefinu á undan framan af 2. leikhluta en síðustu fimm mínúturnar tóku Selfyssingar góðan sprett og breyttu stöðunni úr 30-38 í 44-43 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
FSu leiddi allan 3. leikhluta en munurinn var lítill og staðan að honum loknum var 63-61. Blikar skoruðu fyrstu fjögur stigin í síðasta fjórðungnum en Sæmundur Valdimarsson svaraði með sjö stigum í röð fyrir FSu sem hélt forystunni til leiksloka. Blikar önduðu þó niður um hálsmálið á þeim allan tímann en niðurstaðan var 82-78 sigur í hörkuleik.
Sæmundur var bestur í liði FSu með 22 stig, Orri Jónsson skoraði 16 og Svavar Stefánsson átti mjög fínan leik með 15 stig og 8 fráköst. Bjarni Bjarnason skoraði 12 stig.