Hamar vann mikilvægan sigur á Vestra í toppbaráttu 1. deildar karla í körfubolta í kvöld á meðan FSu tapaði þrettánda deildarleik vetrarins, nú gegn Fjölni.
Það var mikil spenna í Frystikistunni í Hveragerði þar sem Vestri var í heimsókn en úrslitin réðust í framlengingu. Staðan var 32-36 í leikhléi en Hamar var sterkari í seinni hálfleik. Vestramenn áttu síðustu sókn leiksins og jöfnuðu með þriggja stiga skoti á lokasekúndunni, 88-88.
Vestri hafði frumkvæðið í framlenginunni og náði fjögurra stiga forskoti þegar skammt var eftir, 93-97. Hvergerðingar skoruðu hins vegar fimm síðustu stigin og unnu með eins stigs mun, 98-97.
Julian Nelson var stigahæstur hjá Hamri með 23 stig, Þorgeir Gíslason skoraði 19, Larry Thomas 17 og Smári Hrafnsson 12. Jón Arnór Sverrisson var með magnaða tölfræði fyrir Hamar; 7 stig, 12 fráköst, 12 stoðsendingar og 7 stolna bolta. Framlag upp á 24 og hann var bestur Hamarsmanna í kvöld.
Nýr leikmaður stigahæstur hjá FSu
FSu hafði frumkvæðið í fyrri hálfleik gegn Fjölni á útivelli og leiddi 41-47 í leikhléi. Fjölnismenn svöruðu fyrir sig í 3. leikhluta og náðu svo að halda FSu frá sér í 4. leikhluta en þrjú stig skildu liðin að í lokin, 87-84.
Nýr Bandaríkjamaður í liði FSu, Antowine Lamb, átti fína frumraun, skoraði 32 stig og tók 15 fráköst. Ari Gylfason skoraði 17 stig og Birkir Víðisson 10.
Hamar er í 4. sæti deildarinnar með 18 stig en FSu er í 8. sæti með 2 stig.