Selfoss vann öruggan sigur á HK í botnbaráttu úrvalsdeildar karla í handbolta í Set-höllinni í kvöld, 26-22. Sigurinn var heldur betur mikilvægur en Selfoss og Víkingur hafa nú 8 stig í fallsætunum og þar fyrir ofan er HK með 9 stig.
Leikurinn var mjög kaflaskiptur í fyrri hálfleik en Selfyssingar leiddu stærstan hluta leiksins, eftir að hafa skorað sex mörk í röð um miðjan fyrri hálfleikinn. Staðan í hálfleik var 14-12.
Selfoss hélt aftur af HK í seinni hálfleiknum en hvorugt liðið var að sýna sínar bestu hliðar. Sigur Selfyssinga var þó mjög sanngjarn og HK átti engin svör á lokakafla leiksins.
Sveinn Andri Sveinsson átti mjög góðan leik fyrir Selfoss og var markahæstur með 9 mörk. Hans Jörgen Ólafsson skoraði 8, Jason Dagur Þórisson og Gunnar Kári Bragason 3, Álvaro Mallols og Hannes Höskuldsson 1 og Sölvi Svavarsson 1/1. Jón Þórarinn Þorsteinsson var frábær í marki Selfoss og varði 15/1 skot.