
Selfoss vann öruggan – og mikilvægan – sigur á Dalvík/Reyni á heimavelli í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld, 4-0.
Selfyssingar höfðu yfirhöndina allan leikinn og gestirnir ógnuðu ekki að ráði. Þeir vínrauðu litu sérstaklega vel út í fyrri hálfleik en náðu aðeins að skora tvö mörk, þrátt fyrir fjölda færa. Kenan Turudija skoraði þau bæði, á 17. og 41. mínútu með mjög góðum afgreiðslum.
Seinni hálfleikurinn einkenndist af miðjumoði framan af en Adam Örn Sveinbjörnsson kom Selfossi í 3-0 eftir hornspyrnu á 74. mínútu og tíu mínútum síðar skoraði Guðmundur Tyrfingsson frábært mark eftir einstaklingsframtak og innsiglaði 4-0 sigur.
Selfoss er nú í 3. sæti deildarinnar með 26 stig en Dalvík/Reynir er í 6. sæti með 24 stig.