Hamar/Þór vann mikilvægan sigur á Ármanni í 1. deild kvenna í körfubolta í Þorlákshöfn í dag.
Hamar/Þór var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og náði mest 14 stiga forskoti í 2. leikhluta. Staðan í hálfleik var 40-30. Gestirnir minnkuðu muninn í þrjú stig í upphafi seinni hálfleiks en þá rifu heimakonur sig aftur í gang og staðan var 61-49 þegar 4. leikhluti hófst.
Björninn var ekki unninn. Ármann beit aftur frá sér á lokakaflanum og þegar tæpar tvær og hálf mínúta voru eftir var munurinn aftur kominn niður í þrjú stig, 70-67. Þær sunnlensku voru komnar í bónus og kláruðu leikinn af öryggi á vítalínunni og tryggðu sér 77-69 sigur.
Emma Hrönn Hákonardóttir var stigahæst hjá Hamri/Þór með 31 stig, Hildur Gunnsteinsdóttir skoraði 11 stig og tók 7 fráköst, Aniya Thomas skoraði 10 stig og tók 7 fráköst, Tijana Raca skoraði 10 stig, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir skoraði 6 stig og tók 13 fráköst, Jóhanna Ágústsdóttir skoraði 5 stig og Gígja Rut Gautadóttir 4.
Með sigrinum jafnaði Hamar/Þór Ármann að stigum, bæði lið eru með 18 stig í 4.-5. sæti deildarinnar.