Selfyssingar fengu skell þegar Þróttur Reykjavík kom í heimsókn á Selfossvöll í kvöld í 1. deild karla í knattspyrnu.
Liðin eru að berjast á neðri hluta töflunnar og því mikið í húfi fyrir bæði lið. Selfyssingar léku ágætlega úti á vellinum en gekk illa að skapa sér færi. Þróttarar voru hins vegar skeinuhættir í skyndisóknum og þeir komust yfir á 21. mínútu. Eftir markið virtist allur vindur úr Selfyssingum en staðan var 0-1 í hálfleik.
Heimamenn mættu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik og komu sér ítrekað í góða stöðu á upphafs mínútum hans. Á 55. mínútu komust Þróttarar hins vegar inn í lélega þversendingu aftarlega á vellinum, stálu boltanum og afgreiddu hann í netið á nokkrum sekúndum.
Selfyssingar héldu áfram að sækja en gekk ekkert upp við markið. Gestirnir áttu síðasta orðið því þeir bættu við þriðja markinu í uppbótartímanum eftir snarpa sókn.
Eftir þetta 0-3 tap er staðan því þannig að Selfyssingar eru áfram í 10. sæti með 12 stig en Þróttur er í 11. sæti, fallsæti, með 10 stig.