Það er slegist um hvert einasta stig í Olísdeild karla í handbolta. Selfyssingar sigu niður töfluna í kvöld eftir 33-26 tap gegn Stjörnunni í Garðabæ, þar sem þeir vínrauðu komust aldrei almennilega í gang.
Selfyssingar voru skrefinu á undan fyrstu tíu mínúturnar en þá kom góður kafli hjá Stjörnunni sem náði í kjölfarið þriggja marka forskoti. Munurinn jókst jafnt og þétt og var orðinn sjö mörk þegar flautað var til hálfleiks, 19-12.
Munurinn hélst svipaður allan seinni hálfleikinn og sigur Stjörnunnar var aldrei í hættu.
Atli Ævar Ingólfsson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Einar Sverrisson skoraði 5/1, Ísak Gústafsson 4/1, Richard Sæþór Sigurðsson 4, Guðmundur Hólmar Helgason og Guðjón Baldur Ómarsson 2 og þeir Elvar Elí Hallgrímsson, Hannes Höskuldsson og Karolis Stropus skoruðu allir 1 mark.
Vilius Rasimas varði 10 skot í marki Selfoss og var með 32% markvörslu og Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 1 skot og var með 8% markvörslu.
Staðan í deildinni er þannig að Selfoss er í 7. sæti með 23 stig og Stjarnan er í 5. sæti með jafn mörg stig.