KFR vann mikilvægan sigur á Spyrni í 5. deild karla í knattspyrnu í dag en liðin mættust á Hvolsvelli.
Fyrri hálfleikur var markalaus lengst af en á 39. mínútu fengu Rangæingar vítaspyrnu og Helgi Valur Smárason skoraði úr henni. Þremur mínútum síðar var Hjörvar Sigurðsson búinn að tvöfalda forskot KFR og staðan var 2-0 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var fjörugur og á síðasta hálftímanum skiptust liðin á að skora. Spyrnir minnkaði muninn í 2-1 en Adam Örn Sveinbjörnsson kom KFR í 3-1 á 79. mínútu. Gestirnir voru ekki hættir og þeir breyttu stöðunni í 3-2 þegar átta mínútur voru eftir af leiknum en Rangæingar áttu síðasta orðið og Rúnar Þorvaldsson tryggði þeim 4-2 sigur í uppbótartímanum.
KFR er í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni, liðið á tvo leiki eftir og er með 28 stig í 2. sæti.