Hamar vann góðan sigur á KFS í Vestmannaeyjum í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld en Árborg tapaði heima gegn toppliði Ýmis.
Hamarsmenn lentu í kröppum dansi í upphafi leiks í Vestmannaeyjum því KFS skoraði tvívegis í fyrri hálfleiknum áður en Przemyslaw Bielawski náði að minnka muninn í 2-1 á 41. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik. Unnar Magnússon jafnaði metin fyrir Hamar á 69. mínútu og Hvergerðingar áttu góðan lokasprett því Máni Snær Benediktsson skoraði sigurmarkið sex mínútum fyrir leikslok. Lokatölur á Týsvelli 2-3.
Árborgarar voru ekki á tánum í upphafi leiks gegn Ými. Gestirnir komust yfir á 6. mínútu og bættu við öðru marki á 23. mínútu. Í kjölfarið tóku Árborgarar öll völd á vellinum en markvörður Ýmis átti þrjár magnaðar vörslur og tryggði sínum mönnum 0-2 forskot í leikhléi. Árborg var með boltann nánast allan seinni hálfleikinn en gekk ekkert að skapa sér færi og á 65. mínútu refsuðu Ýmismenn þeim með marki úr skyndisókn. Lokatölur 0-3.
Þegar fimm umferðum er lokið er Hamar í 2. sæti deildarinnar með 13 stig en Árborg er í 6. sæti með 7 stig.