Hamar skellti Hetti fyrir austan og Selfoss tapaði naumlega fyrir Vestra á heimavelli í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi.
Hamarsmenn voru í miklu stuði í Brauð og co. höllinni á Egilsstöðum, leikurinn var lengst af jafn og spennandi en Hvergerðingar voru sterkari í seinni hálfleik og unnu að lokum sannfærandi sigur, 75-96. Staðan í hálfleik var 41-40.
Everage Richardson átti stórleik fyrir Hamar, skoraði 40 stig og tók 12 fráköst. Ragnar Ragnarsson skoraði 16 stig og Julian Rajic 13.
Dramatík á Selfossi
Selfoss tapaði naumlega fyrir Vestra í hörkuleik í Gjánni á Selfossi. Leikurinn var jafn allan tímann en Selfoss leiddi í leikhléi 56-52. Baráttan hélt áfram í seinni hálfleik og úrslitin réðust ekki fyrr en í blálokin. Selfyssingar voru yfir, 95-93, en Vestri skoraði síðustu fjögur stigin í leiknum eftir að Selfoss hafði misst boltann á lokamínútunni. Lokatölur 95-97.
Chaed Wellian var stigahæstur hjá Selfossi með 24 stig og Marvin Smith Jr. skoraði 23 stig og tók 15 fráköst. Ari Gylfason skoraði 18 stig og Hlynur Hreinsson 15, auk þess sem hann sendi 12 stoðsendingar.
Hamar í harðri baráttu
Þegar sautján umferðum er lokið í deildinni er Hamar í 3. sæti með 22 stig en Selfoss er í 6. sæti með 14 stig. Hvergerðingar eru í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni en Selfossliðið siglir lyngnan sjó.