Kvennalið Hamars tapaði 59-67 þegar Grindavík kom í heimsókn í Domino’s-deild kvenna í körfubolta í kvöld.
Leikurinn var mjög kaflaskiptur, Hamar komst í 8-2 í upphafi leiks en Grindavík svaraði með 2-11 áhlaupi og leiddi 10-13 að loknum 1. leikhluta. Í 2. leikhluta léku Hamarskonur svo á alls oddi og völtuðu hreinlega yfir Grindvíkinga. Hamar vann leikhlutann 24-8 og staðan var 34-21 í hálfleik.
Þriðji leikhluti var í járnum og Hamar hafði örugga forystu að honum loknum, 51-36. Þá fór að síga á ógæfuhliðina hjá Hamri og Grindvíkingar gengu á lagið. Gestirnir átu hratt upp forskotið og fjömust yfir, 57-58 þegar þrjár mínútur voru eftir. Hamar svaraði strax með tveggja stiga körfu en skoraði svo ekki meira á síðustu þremur mínútunum á meðan Grindavík setti niður níu stig og tryggði sér sigurinn.
Salbjörg Sævarsdóttir átti stórleik fyrir Hamar með 18 stig, 20 fráköst og 5 varin skot. Sydnei Moss skoraði 18 stig og tók 18 fráköst, Sóley Guðgeirsdóttir skoraði 9 stig, Heiða B. Valdimarsdóttir 8 og Helga Vala Ingvarsdóttir 6.
Hamar er í 7. sæti Domino’s-deildarinnar með 4 stig.