Miklar sveiflur í Hveragerði

Astaja Tyghter skoraði 40 stig í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar-Þór tapaði 75-84 gegn KR í hörkuleik í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld þegar liðin mættust í Hveragerði. Slæmur kafli snemma leiks varð Hamri-Þór að falli í kvöld.

Hamar-Þór var skrefinu á undan í 1. leikhluta en undir lok leikhlutans og í upphafi 2. leikhluta skoruðu gestirnir 24 stig í röð og breyttu stöðunni í 13-34. Þær sunnlensku svöruðu fyrir sig í 2. leikhluta og náðu að minnka muninn í tólf stig, staðan 33-45 í leikhléi.

Sveiflurnar voru miklar í 3. leikhluta, KR náði aftur að auka muninn í 20 stig en þá tók við frábær kafli hjá Hamri-Þór. Þær minnkuðu muninn jafnt og þétt og í upphafi 4. leikhluta komust þær yfir, 66-65, eftir að Astaja Tyghter hafði skorað átta stig í röð. Þá kviknaði aftur á KR-ingum, þær náðu forystunni á nýjan leik og héldu henni til loka, þó að Hamar-Þór hafi aldrei verið langt undan.

Tyghter átti magnaðan leik fyrir Hamar-Þór, skoraði 40 stig og tók 16 fráköst auk þess að stela 7 boltum. Julia Demirer var sömuleiðis sterk með 12 stig og 12 fráköst.

Hamar-Þór er í 7. sæti deildarinnar með 16 stig en KR er í 3. sæti með 22 stig.

Tölfræði Hamars-Þórs: Astaja Tyghter 40/16 fráköst/7 stolnir, Julia Demirer 12/12 fráköst, Hrafnhildur Magnúsdóttir 8/9 stoðsendingar, Lovísa Bylgja Sverrisdóttir 8, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 5/5 fráköst, Helga María Janusdóttir 2/5 stoðsendingar.

Fyrri greinBannað að kafa í Ölfusvatnsvík
Næsta greinSlæm byrjun varð Hamri að falli