Það var stór stund í sögu Íþróttafélagsins Mílunnar í kvöld þegar liðið fékk afhentan bikar fyrir deildarmeistaratitilinn í utandeild karla í handbolta.
Mílan tryggði sér titilinn með sigri á Haukum á útivelli í síðustu viku, 29-32. Liðið fékk svo bikarinn afhentan eftir að hafa gert 24-24 jafntefli gegn Handboltafélagi Hafnarfjarðar á útivelli í kvöld.
Liðsmenn Mílunnar voru að vonum kátir eftir leik, enda fyrsti stóri titill félagsins í höfn, og stærsti titill sunnlenskra boltaíþróttamanna það sem af er þessu ári.
Sex félög tóku þátt í utandeildinni í vetur og var gengi Mílunnar glæsilegt, liðið vann átta leiki af tíu og sigraði með nokkrum yfirburðum í deildinni.