Íþróttafélagið Mílan hefur fengið keppnisleyfi í 1. deild karla í handbolta. Félagið var stofnað í sumar og hét þá Sunnlenska íþróttafélag en ekki fékk heimild fyrir því nafni hjá ÍSÍ.
„Þess vegna breytum við um nafn og heitum nú ÍF Mílan. Ástæðan fyrir þessum breytingum er sú að ekki fékkst leyfi hjá ÍSÍ fyrir Sunnlenska-nafninu þar sem þeim fannst þetta of stórt nafn fyrir ekki stærra félag. Þetta er endanleg niðurstaða og ÍF Mílan er komið til að vera. Nú eru þrjú stórlið í heiminum; ÍF Mílan, AC Milan og Inter Milan,“ sagði Birgir Örn Harðarson, formaður IF Mílan, léttur í bragði í samtali við sunnlenska.is í dag.
Nýverið skrifuðu leikmenn undir samninga við félagið. Atli Kristinsson, Óskar Kúld eru meðal þeirra sem skrifuðu undir ásamt því að Örn Þrastarson gengur til liðs við félagið á lánssamning. Meðal annarra leikmanna liðsins má reynsluboltann Ívar Grétarsson.
Mílan spilaði æfingaleik við ÍH síðastliðið föstudagskvöld. Leikurinn fór fram í Kaplakrika og endaði leikurinn 31-28 fyrir ÍH. Mílan komst í 0-2 og leiddi leikinn þar til ÍH jafnaði 9-9 en lið ÍH leiddi leikinn það sem eftir var. Örn Þrastarson var markahæstur í liði Mílan með níu mörk.
Næsti æfingaleikur liðsins fer fram í Reykjavík næst komandi fimmtudagskvöld kl 20:00 þegar liðið heimsækir Þrótt. Fyrsti leikur liðsins í deild fer svo fram laugardaginn 20. september kl 16:30 í Íþróttahúsi Vallaskóla á Selfossi, þegar liðið fær Hamrana frá Akureyri í heimsókn.
Félagið var stofnað þann 17. júlí sl. en auk Birgis eru í stjórn þeir Eyþór Jónsson, gjaldkeri og meðstjórnendurnir Aron Valur Leifsson, Atli Kristinsson og Örn Þrastarson.
Að sögn Birgis telur æfingahópurinn hátt í þrjátíu leikmenn en liðið æfir tvisvar í viku og mun spila sína heimaleiki á Selfossi kl. 16 eða 16:15 á laugardögum.
„Liðið er hugsað fyrir þá sem hafa hætt á síðustu árum vegna náms, stofnað fjölskyldur eða þurft að minnka við sig vegna meiðsla. Við erum komnir með góða styrkaraðila á bakvið okkur, en munum aðallega keyra þetta à æfingagjöldum,“ sagði Birgir ennfremur.