Íþróttafélagið Mílan er að hefja sitt annað ár með meistaraflokk karla í 1. deildinni í handbolta. Liðið fékk góða viðbót í leikmannahópinn þegar þrír leikmenn gengu í raðir félagsins frá Selfossi.
Það eru þeir Árni Felix Gíslason, Gunnar Ingi Jónsson og Ómar Vignir Helgason, allir gerður þeir tveggja ára samning við félagið. Árni Felix lék með Mílunni fyrri hluta síðasta tímabils, 16 leiki og gerði í þeim 30 mörk, en Gunnar Ingi og Ómar léku með Selfossi á síðasta tímabili.
„Það er ánægjulegt að Árni Felix skrifi undir áframhaldandi samning við félagið. Gunnar Ingi og Ómar koma frá Selfyssingum stútfullir af reynslu og munu koma til með að aðstoða okkur mikið í vetur. Gunnar sem var fyrirliði Selfyssinga í fyrra er örvhentur og getur leikið sem skytta og í horninu. Ómar er línumaður og heljarinnar varnartröll sem er ekkert lamb að leika sér við,“ sagði Birgir Örn Harðarson, forseti, í samtali við sunnlenska.is.