ÍF Mílan sótti Íþróttafélag Hafnarfjarðar heim í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Leikurinn var æsispennandi og fjörugur en heimamenn höfðu að lokum eins marks sigur, 24-23.
Örn Þrastarson skoraði þrjú fyrstu mörk Mílan sem leiddi 4-6 eftir rúmlega tíu mínútna leik. ÍH komst svo yfir, 8-7 en eftir það var leikurinn í járnum fram að hálfleik. Staðan í leikhléinu var 12-13, Mílan í vil.
Jafnræði var með liðunum framan af síðari hálfleik en ÍH hafði eins marks forskot, 18-17 þegar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum. Árni Felix Gíslason jafnaði 19-19 fyrir Mílan þegar rúmar tíu mínútur voru eftir á klukkunni en í kjölfarið tóku heimamenn forystuna og héldu henni til leiksloka. Það stóð þó mjög tæpt því Mílan átti síðustu sókn leiksins en markvörður ÍH varði á lokasekúndunni og tryggði sínum mönnum eins marks sigur, 24-23.
Örn var markahæstur hjá Milan með 10 mörk, Atli Vokes skoraði 4, Óskar Kúld, Árni Felix og Eyþór Jónsson 2 og þeir Ívar Grétarsson, Eyvindur Hrannar Gunnarsson og Magnús Már Magnússon skoruðu allir eitt mark. Ástgeir Sigmarsson varði 16 skot og var með 40% markvörslu.