Mílan hefur aldrei tapað leik í 1. umferð Íslandsmótsins, í sögu félagsins. Á því varð engin breyting í kvöld þegar liðið gerði 22-22 jafntefli við ÍR á útivelli.
Mílan hafði frumkvæðið allan fyrri hálfleikinn og leiddi í leikhléi, 12-14. ÍR skoraði tvö fyrstu mörkin í síðari hálfleik og jafnaði 14-14. Seinni hálfleikurinn var jafn, en þegar fimm mínútur voru eftir hafði Mílan tveggja marka forskot. ÍR-ingar náðu hins vegar að jafna áður en yfir lauk og liðin skiptu með sér stigunum.
Atli Kristinsson var markahæstur hjá Mílunni með 9/3 mörk, Sigurður Már Guðmundsson skoraði 5, Gunnar Páll Júlíusson 4, Sævar Ingi Eiðsson 2 og þeir Árni Felix Gíslason og Kristinn Ingólfsson skoruðu sitt markið hvor.
Ástgeir Sigmarsson var öflugur í marki Mílunnar og varði 18/2 skot.