Í gærkvöldi var undirritaður samningur á milli ÍF Mílan og Arnar Þrastarsonar, en Örn mun sjá um þjálfun liðsins í vetur. Mílan mun tefla fram tveimur liðum í vetur, annars vegar í 1. deild á Íslandsmóti og hins vegar í utandeildinni.
Þar sem Örn er einnig leikmaður 1. deildarliðs Selfoss og verður þá í eldlínunni þegar Mílan leikur sína leiki, var Sebastian Alexandersson ráðinn aðstoðarþjálfari hjá Mílan og mun hann aðstoða Örn við æfingar og stýra liðinu í fjarveru hans. Basti skrifaði einnig undir þjálfarasamning í gærkvöldi.
Einnig skrifuðu fimm leikmenn undir lánssamning og koma þeir allir á láni frá Selfyssingum. Þetta eru þeir Bjarki Már Magnússon, Gunnar Páll Júlíusson, Jóhannes Snær Eiríksson, Sverrir Andrésson og Sævar Ingi Eiðsson.
Sverrir Andrésson er kunnugur liðinu en hann stóð á milli stanganna í nokkrum leikjum hjá Mílan á síðasta tímabili. Jóhannes Snær og Sævar Ingi geta báðir leikið sem hornamenn og fyrir utan, Bjarki Már er skytta og Gunnar Páll er línujaskur. Það er nokkuð ljóst að allir þessir strákar munu styrkja lið ÍF Mílan til muna í vetur.
Fjórir leikmenn framlengdu samning sinn við liðiðið í gærkvöldi en þeir Atli Vokes, Magnús Már Magnússon, Róbert Daði Heimisson og Sigurður Már Guðmundsson skrifuðu allir undir samning til tveggja ára.