Mílan missti af stigi í blálokin

Mílan tapaði 22-23 þegar KR kom í heimsókn í Vallaskóla í 1. deild karla í handbolta í kvöld.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik, Mílan leiddi 6-5 um miðjan hálfleikinn en í kjölfarið komust KR-ingar yfir og leiddu í leikhléi, 11-12.

Mílan skoraði fjögur fyrstu mörkin í seinni hálfleik og hélt forskotinu vel inn í seinni hálfleikinn. Lokamínúturnar voru hins vegar mjög spennandi og allt í járnum síðustu tíu mínúturnar.

Staðan var 22-22 á lokasekúndunum og Mílan með boltann en síðasta sókn liðsins geigaði og KR fékk boltann þegar fimmtán sekúndur voru eftir. Gestirnir brunuðu í sókn og höfðu vítaskot upp úr krafsinu sem þeir skoruðu sigurmarkið úr í blálokin. Svekkjandi fyrir þá grænu.

Egidijus Mikalonis skoraði 5 mörk fyrir Míluna, Andri Hrafn Hallsson 5/1, Sigurður Már Guðmundsson 3, Kristinn Ingólfsson 2, Gunnar Páll Júlíusson 2, Magnús Már Magnússon 2, Gunnar Ingi Jónsson 2/1 og Ketill Hauksson 1.

Ástgeir Sigmarsson varði 17/1 skot í marki Mílunnar.

Fyrri greinRíkið kaupir Geysissvæðið
Næsta greinFramkvæmdum í höfninni frestað